JANÚAR

FEBRÚAR

MARS

APRÍL

MAÍ

JÚNÍ

JÚLÍ

ÁGÚST

SEPTEMBER

OKTÓBER

NÓVEMBER

DESEMBER

2011

3 6 5   R E Y K J A V Í K

F O R S Í Ð A

VEÐURYFIRLIT ÁRSINS 2011

Árið hófst með alauðri jörð og hita yfir frostmarki. Talsvert kólnaði með miklu norðanáhlaupi þann 6. janúar og fór frostið þá niður í 11 stig. Eftir þann 10. hallaði vindurinn sér til austurs en síðan tóku við hlýindi sem stóðu hæst dagana 21.-26. janúar en þá var hiti yfirleitt á bilinu 6-8 stig. Í heildina var þetta hlýr mánuður og mjög snjóléttur. Lítið sást hinsvegar til sólar eða í heiðan himinn.

 

Strax í byrjun febrúar hrökk veturinn í gang og snjór lagðist yfir borgina. Nokkuð umhleypingasamt var dagana 8.-14. febrúar og talsvert vindasamt með köflum. Snjórinn kom og fór fyrir hluta mánaðarins en síðan varð alauð jörð og hlýtt seinni hlutan. Þegar upp var staðið var mánuðinn hlýr og frekar úrkomusamur.

 

Að þessu sinni var mars kaldasti mánuður vetrarins. Snjór var á jörð megnið af mánuðinum en mestur var hann í kringum 8-10 mars. Talsverða kulda gerði einnig og fór frostið niður í 12,5 stig þann 13. mars sem reyndist mesta frost ársins. Nokkur minniháttar illviðri gerði einnig en þá aðallega í kringum 5. og 15. mars. Þann 26. mars var snjórinn horfinn og þokkaleg hlýindi voru ríkjandi síðustu vikuna.

 

Apríl var nokkuð óstöðugur mánuður sem einkenndist af hvössum vindum, gjarnan úr suðvestri með þrálátum skúrum, en ekki síður slyddu- og snjóéljum. Þann 10. skall á stormur sem olli dálitlu tjóni suðvestanlands. Jörð náði alloft að hvítna en þó aldrei neitt að ráði nema síðasta kvöldið þegar óvenjumikla snjókomu gerði miðað við árstíma. Margir kvörtuðu að vonum yfir að vorið léti bíða eftir sér en þrátt fyrir allt var mánuðurinn hlýr í heildina.

 

Mánuðurinn hófst á kafi í snjó en hann var fljótur að hverfa þegar snögghlýnaði þann 2. maí og hitinn rauk upp í 14 stig. Mjög hlýtt var næstu daga og náði hámarkshitinn 16 stigum þann 8. maí. Þessi snögga sumarkoma fór þó fyrir lítið því frekar kalt var seinni mánaðarins. Þann 21. maí hófst kröftugt gos í Grímsvötnum sem olli talsverðu oskufoki suðaustanlands.

 

Kalt var í veðri á landinu framan af mánuðinum, sérstaklega þó norðaustanlands. Aðfaranótt 10. júní varð Esjan hvít niður í rót en eftir það fór hitastigið upp á við og sumarið gat hafist fyrir alvöru. Í Reykjavík sem og víða sunnan- og vestanlands var mjög þurrt og sólríkt enda norðlægar áttir ríkjandi. Þetta var kaldasti júní í Reykjavík frá 1999 en hékk þó samt í meðalhita áranna 1960-1991.

 

Veðrið í júlí var yfirleitt með betra móti en þó komu nokkrir vindasamir dagar og þungbúnir. Ágætlega hlýtt var í veðri allan mánuðinn, úrkoma með minna móti og alveg bærilega sólríkt. Bestu dagarnir voru frá 15. til 21. júlí en síðasta vikan var frekar þungbúin og blaut.

 

Ágætis veðurfar í mánuðinum sem einkenndist helst af þurrviðri í Reykjavík og víðar um land. Sólskin var yfir meðallagi og hlýtt í veðri. Hámarkshiti sumarsins náðist síðdegis þann 5. þegar hitinn fór í 20 stig í borginni og varð mjög gott sumarveður dagana þar á eftir. Yfirleitt var hægviðrasamt nema um miðjan mánuðinn þegar norðanáttin gerðist frekar ágeng.

 

Mánuðurinn var hlýr í gegn og mjög sólríkur fyrri hlutann. Kaldast var þegar hvessa tók af norðri dagana 7-8. september en hægviðrasamir dagar tóku eftir það. Seinni hlutann voru vindar meira af suðaustri með tilheyrandi úrkomu. Nokkuð hvasst var dagana 16.-18. september og einnig síðasta daginn.

 

Mjög breytilegt veður var allan mánuðinn og yfirleitt milt nema þann 18. þegar hitinn var ekki nema 1 stig eftir dálítið norðanskot. Ekkert snjóaði að þessu sinni í Reykjavík nema þá í Esjuna sem í fyrsta skipti á þessari öld náði ekki alveg að losa sig við síðasta skaflinn frá borginni séð. Úrkoma var heldur yfir meðallagi en hitinn í samræmi við hlýindi áranna á undan.

 

Lengi frameftir einkenndist mánuðurinn af hlýindum og góðri tíð og var hitinn yfirliett á bilinu 7-9 stig dagana 8.-18. nóvember en fór mest í 12 stig. Síðustu vikuna tók hinsvegar að frysta og snjóa og var jörð hvít alla síðustu vikuna. Í blálokin kólnaði enn meir og fór frostið niður í 9 stig síðasta sólarhringinn.

 

Eindregin vetrartíð einkenndi þennan mánuð enda var þetta kaldasti desember frá 1981. Talsvert frost var fyrstu 10 dagana en mildaðist eftir það. Mest fór frostið niður fyrir 11 stig þann 9. desember. Hitinn náði sjaldan yfir frostmark af einhverju ráði og hélst jörð meira og minna hvít allan mánuðinn. Djúp lægð fór yfir land á aðfangadag með skammvinnri hlýnun. Mikla snjókomu gerði svo aðfaranótt þess 29. sem spillti færð enda var þarna meiri snjódýpt að morgni í desember en áður hafði mælst í borginni. Snjórinn sjatnaði þó dálítið fyrir áramót eftir hláku.

 

Emil H. Valgeirsson